Flokkur: Fundargerðir NF

21.03.2010 11:59

Stjórnarfundur 18. mars 2010

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til stjórnarfundar. Fundurinn var haldinn í nýrri aðstöðu Siglingafélagsins Ýmis að Naustavör 20 í Kópavogi kl. 18.00.

Málefni fundarins:

 1. Fundargerðir síðastu funda upp lesinar og samþykktar.

Fundargerð frá 15. september 2009

Fundargerð frá 17. nóvember 2009 og

Fundargerð frá 4. febrúar 2010

Fundurinn sem vera átti í janúar féll niður.

 1. Formannafundur hjá NF - Ísland

"Dagur Norðurlandanna" 23. mars 2010 kl. 19.00

Formaður sagði frá formannafundi NF - Ísland sem haldinn var þann 10. mars kl. 17.00. Þvi miður komust ekki fulltrúar frá Akranesi, Þorlákshöfn og Keflavík en aðrir fulltrúar mættu. Aðalmál fundarins var;

Norræna félagið á Íslandi mun standa fyrir hátíðardagskrá í Norræna húsinu í tilefni af degi Norðurlanda með tilstuðlan og styrk frá norrænu sendiráðunum. Við þetta tækifæri ætlar NF - Ísland að afhenda heiðursverðlaun félagsins, Peruna í fyrsta sinn. Heiðursverðlaunin verða veitt þeim einstaklingi sem hefur af mikilli hugsjón og óeigingirni unnið að því að styrkja tengsl norrænna þjóða.

Dagskrá kvöldsins verður hefðbundin hátíðardagskrá með mat, ávörpum, söng og gleði. Elín Gunnlaugsdóttir, söngkona flytur nokkur lög.

Dill restaurant sér um veitingar en staðurinn hefur verið tilnefndur sem besti veitingastaður á Norðurlöndum. Boðið verður upp á tveggja rétta máltíð með borðvíni og kaffi á eftir. Norrænu sendiráðin styrkja hátíðina og því er hægt að stilla þátttökugjaldi í hóf.

            Hugmyndin er að hafa opið fyrir alla að koma á hátíðina.

Hátíðin hefst kl. 19.00 og er þátttökugjald á mann 4.400 kr. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku eigi síðar en 19. mars á netfangið www.norden@norden.is

 1. Vinabæjarmót í Þrándheimi 7. og 8. maí 2010

Norræna félaginu í Kópavogi hefur borist boð á vinabæjarmót frá vinabæ okkar i Þrándheimi.

Vinabæjarmót eða stjórnartengslafundur norrænu vinabæjarfélaganna verður settur föstudagurinn 7. maí nk. kl. 9.00 í ráðhúsinu í Þrándheimi.

Þema fundarins er þrenns konar:

1.  Hvernig eigum við að að koma á góðu samstarfi á milli vinabæjanna

2.  Hlutverk norrænu félaganna i vinabæjarsamstarfinu.

3.  Tillögur á þessum vettvangi er skóli, ungmenni og umhverfi vinabæjanna.

Norræna félagið í Kópavogi sér ekki fært um að styrkja fulltrúa í þessa ferð en

ef einhver úr stjórninni hefur áhuga á að fara verður send umsókn til Kópavogsbæjar um styrk. Hugsanlegir fulltrúar eru Hrafnhildi Jósefsdóttir ef hún kemst ekki þá Hjörtur Pálsson. Aðrir stjórnarmenn hafa gefið þetta frá sér.

 1. Aðalfundur

Vegna aðalfundarins, sem verður 29. apríl nk., verður stjórnin að hittast í eitt skipti til viðbótar til undirbúnings fundarins. Dagsetning ákveðin síðar.

 1. Netfangasöfnun og fjölgun félaga

Hvernig á að efla norrænu félögin á landinu? Talað var um netfangalistann og söfnun netfanga félagsmanna. Birna fékk nýjustu félagsskrána frá höfuðstöðvunum. Þegar þessi stjórn tók við þá voru 410 manns á félagsskránni en það voru þeir sem höfðu borgað félagsgjöldin og einnig þeir sem höfðu ekki borgað gjöldin. Í dag eru félagar á félagaskrá 153 eða aðeins þeir sem hafa borgað félagsgjöldin.

Vinnan við félagsskrána verður þannig háttuð að við byrjum á að afla símanúmera. Tillaga um að stjórnin hittist á Óðinstorgi í tvo tíma til að hringja í félagana í Kópavogi til þess að fá listann sem réttastan. Einnig að reyna að fjölga félögum félagsins.

Birna deildi listanum upp á stjórnina til þess að hver og einn gæti fundið símanúmer á ja.is.

Ákveðið að stjórnin hittist laugardaginn 27. mars í höfuðstöðvum NF - Ísland á Óðinstorgi kl. 10.00-12.00 til þess að hringja í fólk á félagaskránni vegna söfnunar netfanga.

 1. Sænskar hefðir og hátíðir (Det skal vii fira, Svenska traditioner och högtider).

Hirti Pálssyni falið að skoða þessa bók með það það í huga hvort fýsilegt er að gefa út sambærilega bók um íslenska siði.

Fleira ekki gert og ritari ritaði fundargerð.

21.03.2010 11:55

Stjórnarfundur 4. febr. 2010

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til stjórnarfundar. Fundurinn var haldinn í nýrri aðstöðu Siglingafélagsins Ýmis að Naustavör 20 í Kópavogi kl. 18.00.

Málefni fundarins:

 1. Fundargerð síðasta fundar upp lesin og samþykkt.
 2. Norræna félagið í Hafnarfirði og aðventusamverustundin í desember sl. Rætt var um ágæti þessarra samkoma og þá sérstaklega vegna þess að fulltrúar fá kærkomið tækifæri til að kynnist hvert öðru og áherslum annarra norrænna félaga. Félögum okkar í Hafnarfiðrið færðar þakkir fyrir.
 3. Formannafundur Formaður sagði frá því að formaður NF - Ísland hafi boðað til formannafundar þann 10. febrúar eða næstkomandi miðvikudag.
 4. Félagaskrá Norræna félagsins í Kópavogi. Rætt var um félagaskrá og netfangalista félagsins. Birna formaður mun sjá um að fá afrit af  félagaskránni á höfuðstöðvunum við Óðinstorg. Stjórnin mun síðan skipta listanum niður á sig til þess að hringja og fá uppgefin netföng og nýjar upplýsingar. Gallinn við listann er að það vantar flestöll netföng. Síðan þarf að fara yfir gamla listann. Ýmislegt sem hægt er að lagfæra til þess að færa okkur inn í tölvuöldina.
 5. Lög félagsins  Ennþá eru lög félagsins í endurskoðun og var Paul og Margréti falið að halda áfram með þá vinnu. Samkvæmt lögum NF - Ísland verða ný eða endurskoðuð lög norrænu félaganna að fara fyrir fund aðalstjórnar NF - Ísland til samþykktar áður en hægt er að samþykkja þau á aðalfundi félags.
 6. Aðalfundur Ákveðið var að halda aðalfund Norræna félagsins í Kópavogi þann 29. apríl 2010 í sal Bókasafns Kópavogs kl. 18.00.

Engin önnur mál lágu fyrir fundi en ritari gékk frá fundargerð.

21.03.2010 11:49

Stjórnarfundur 17. nóv. 2009

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til stjórnarfundar. Fundurinn var haldinn á Muffins í Hamraborg þriðjudaginn 17. nóvember 2009 kl. 17.00.

Málefni fundarins:

 1. Norræna félagið í Hafnarfirði býður til aðventusamverustundar.  Eins og fyrri ár hafa norrænu félögin á höfuðborgarsvæðinu komið saman í desember og átt ánægjulega kvöldstund saman með mat og drykk og skemmtilegum uppákomum. Í ár verður Norræna félagið í Hafnarfirði gestgjafi og býður okkur suður að Straumi föstudaginn 20. nóvember kl. 19.30. Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi ákvað að mæta öll til veislunnar með mökum sínum og sameinast í bíla.
 2. Bókasafnsvikan í Kópavogi.  Rætt var um bókina "Hvað eru MYTUR" sem gefin var út af NF - Ísland með styrk frá Norðurlandaráði í kjölfar 85 ára afmælis Norræna félagsins NF - Ísland en þá var höfuðborgarráðstefna haldin í Reykjavík. Ráðstefnan var haldin um MYTUR og er þessi bók samantekt á öllum fyrirlestrunum sem haldnir voru á ráðstefnunni.
 3. Næstu þrír fundir ákveðnir.  Fimmtudagur 21. janúar 2010 kl. 18.00-19.00  Fimmtudagur 18. febrúar 2010 kl. 18.00-19.00  Fimmtudagur 18. mars 2010 kl. 18.00-19.00.
 4. Skoðunarmenn reikninga félagsins. Aðalskoðunarmaður félagsins, Tómas H. Sveinsson er fluttur frá landinu og ákvað stjórnin að leita til Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi formanns Norræna félagsins í Kópavogi til að gegna því starfi frá og með næsta aðalfundi. Ákveðið að senda Tómasi jólakveðju frá stjórninni og sér Hjörtur Pálsson um það.
 5. Lög félagsins Lög félagsins eru í endurskoðun og var Paul og Margréti falið að halda áfram með þá vinnu.

Fleira ekki gert en ritari ritaði fundargerð.

20.03.2010 12:15

Stjórnarfundur 6. okt.2009

Stjórnarfundur Norræna Félagsins í Kópavogi haldinn 6. október á Muffins Bakery í Hamraborg.

Eftirfarandi var rætt:

1.         Rætt um fyrirhugað sambandsþing NF- Ísland sem haldið verður í Kópavogi.

            Formaður var búin að ræða við aðila til að vinna á þinginu (fundarstjóra og ritara).

2.         Fundargerð síðasta fundar leiðrétt.

3.         Rætt um að enn á eftir að bera nýju lögin (nf-Kóp) undir landsfélgið. Enn á eftir að vélrita lögin alminnilega upp og ganga frá þeim. Ákveðið að gera það og senda öllum til yfirlestrar áður en sent frá okkur.


4.         Rætt um dagskrá vetrarins og félagatalið. Rætt um hvort við eigum að hringja út til allra á listanum og vinna upp nýtt félagatal.

           

Rætt um þá hugmynd að hrinda aftur af stað þeirri hefð að halda formannafundi fyrir formenn félaganna á Stór-Reykjavíkur svæðinu.

Fleira ekki samþykkt en varaformaður tók saman fundargerð.

20.03.2010 08:00

Stjórnarfundur 29. sept. 2009

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til fyrsta stjórnarfundar eftir aðalfund sem var 29. apríl 2009. Stjórnarfundurinn var haldinn á Muffins í Hamraborg, þriðjudaginn 15. september kl. 17.00.

Fyrsta mál á dagskrá var að stjórnin skipti með sér verkum samkvæmt lögum félagsins.

Formaður Birna Bjarnadóttir lagði fram eftirfarandi tillögu að breyttum hlutverkum í stjórninni frá fyrri stjórn:

            Gjaldkeri:  Gréta Eiríksdóttir

            Ritari:  Margrét Björnsdóttir

            Varaformaður:  Hrafnhildur Jósefsdóttir

            Meðstjórnandi: Paul Jóhannsson

            Varamenn eru sem fyrr:

            Sigurbjörg Björgvinsdóttir og Hjörtur Pálsson

Tillagan var samþykkt.

Því næst var rætt var um væntanlegt starf í vetur.

Hugmynd um að ritari muni að einhverju leyti sjá um heimasíðuna en formaður hefur haft veg og vanda að henni hingað til.

Samþykkt að Paul taki að sér að minna á stjórnarfundi og eftirfylgni samþykkta.
Fleira ekki gert en ritari ritaði fundargerð.

23.12.2009 11:12

Kveðja frá stjórn Norræna félagsins í KópavogiVið sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt nýtt ár til allra félaga í Norræna félaginu, íbúa í Kópavogi og vina hér heima sem erlendis.

Sérstaklega þökkum við félögum í stjórnum annarra félagsdeilda Norrænu félaganna fyrir að heimsækja bæinn okkar í haust á Sambandsþing Norræna félagsins.

Hittumst heil á nýju starfsári.


Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi,

Birna Bjarnadóttir, formaður
Hrafnhildur Jósefsdóttir, varaformaður
Margrét S. Björnsdóttir, ritari
Gréta B. Eiríksdóttir, gjaldkeri
Paul Jóhannsson
Hjörtur Pálsson og
Sigurbjörg Björgvinsdóttir.

10.10.2009 10:34

Stjórnarfundir í sept og okt 2009

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi hefur komið saman til funda í haust. Fyrri fundurinn var 15. september og var haldinn í kaffihúsinu Muffins í Hamraborg. Á dagskrá var kjör í embætti stjórnar. Niðurstaða fundarins var að varaformaður er nú Hrafnhildur Jósefsdóttir, gjaldkeri er Gréta B. Eiríksdóttir og ritari er Margrét Björnsdóttir. Paul Jóhannsson mun annast fundarboðun stjórnarfunda. Varamenn voru kjörnir á aðalfundi þau Sigurbjörg Björgvinsdóttir og Hjörtur Pálsson. Formaður er Birna Bjarnadóttir.

Síðari stjórnarfundurinn var haldinn 6. október og einnig í Muffins. Þá var fjallað um undirbúning Sambandsþings Norræna félagsins á Íslandi sem haldið verður í Kópavogi 10. og 11. október 2009.
Norræna félagið í Kópavogi á 2 fulltrúa á þinginu en alls munu um 40 fulltrúar sitja þingið.
Fulltrúar Norræna félagsins í Kópavogi verða Birna Bjarnadóttir og Margrét Björnsdóttir og varamaður er Paul Jóhannsson. Félaginu var falið að tillnefna fundarstjóra og fundarritara á þinginu báða dagna og voru til þess tilnefndir félagar í Norræna félaginu.

Næsti stjórnarfundur er áformaður 3. nóvember 2009 kl 17:00

22.04.2009 10:14

Stjórnarfundur 3. apríl 2009

Stjórn NF í Kópavogi koma saman til stjórnarfundar 3. apríl 2009 kl 18:00.
Fyrir fundinum lá undirbúningur aðalfundar 2009 sem halda ber samkvæmt lögum í apríl árlega.

Samþykkt var að halda fundinn 29. apríl kl 18:00 og leitast við að fá afnot af fundarsal Bókasafns Kópavogs.

Þá var farið yfir lokadrög að breytingum á lögum félagsins og voru þau samþykkt. Stjórnin mun leggja lagabreytingarnar fyrir aðalfund.

Rætt var um hugmynd að Norrænni messu í Hallgrímskirkju í Saurbæ, boðun hennar og framkvæmd.

Þá var ákveðið að efna til samverustundar í Vinabæjarlundi við Digraneskirkju 21. júní kl 16:00.

Formaður gerði grein fyrir tillögum sem fram komu í hugmyndabankann sem settur var fram á afmæli félagsins og taldi tilvalið að reyna að koma þeim á framfæri á árinu.

Þá var rifjað upp að heimild hafði fengist til að setja upp vegvísi með fjarlægðum frá Kópavogi til vinabæjanna við Vinabæjarlundinn, en þær upplýsingar liggja nú fyrir, ma. á heimasíðu NFKóp.
Fleira ekki gert.

08.03.2009 18:16

Stjórnarfundur 7. mars 2009

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi hélt fund laugardaginn 7.mars kl 11:00.

Rætt var um endurskoðun laga félagsins sem samþykkt voru á stofnfundi 5. desember 1962 og þykir tímabært að aðlaga þann texta lögum Norræna félagsins á Íslandi og nútímasamfélagi.
Samlesin voru drög að nýjum lagatexta og Paul var síðan falið að senda stjórnarmönnum til yfirlestrar og athugasemda fyrir næsta stjórnarfund sem ákveðinn var 3. apríl.

Formaður gerði grein fyrir fyrirhugaðri dagskrá í tilefni degi norrænnar tungu sem haldinn verður 23. mars. Fjórir stjórnarmenn munu sækja fund af því tilefni fyrir hönd félagsins.

Stjórnin ræddi hugmynd um norræna messu í Hallgrímskirkju á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd en Hjörtur Pálsson er þjónandi prestur í þeirri sókn fram á sumar. Nánar verður unnið að þessu verkefni í samráði við Hjört.

Aðalfundur NF í Kópavogi er ákveðinn 29. apríl 2009 kl 18:00. Staðsetning verður kynnt síðar. Rætt var um undirbúning aðalfundar, fundarboðun og kynningu lagabreytinga ef stjórnin ákveður svo.

Stjórnin ræddi um vinabæjarlundinn við Digraneskirkju og fyrirhugaða samverustund á Jónsmessu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 12:45.

17.01.2009 16:14

Stjórnarfundur 17. janúar 2009

Stjórn NF í Kópavogi koma saman til fundar laugardaginn 17. janúar 2009 11:00.

Rætt var um fundargerðir stjórnar og vistun þeirra á heimasíðu en fundargerð síðasta aðalfundar hefur ekki verið lögð fram. Skýrsla stjórnar til aðalfundar 2008 er hins vegar á síðunni. Rætt um tengingu á fleiri tengla á heimasíðunni og uppfærslu á upplýsingum um stjórnarmenn. Kannað verður tengingar inn á félagaskráningarform á heimasíðu Norræna félagsins á Íslandi og upplýsingar um fríðindi félagsmanna.

Rætt var um skráningu netfanga félagsmanna NF í Kópavogi en ekki er enn fundið lausn á hýsingu þeirrar skrár þar sem félagið er ekki með skráðan síma og vistun á simnet.is því ekki valkostur. Samþykkt að formaður ræði við framkvæmdastjóra NF um möguleika á vistun skrárinnar hjá aðalfélaginu.

Þá voru ákveðnir fundardagar stjórnar fram til aðalfundar og verkefni þeirra funda. Samþykkt að taka upp umræðu um endurskoðun laga fyrir Norræna Félagið í Kópavogi en það var langt komið fyrir síðasta aðalfund. Samþykkt að ritari taki saman athugasemdir og sendi stjórnarmönnum í næstu viku. Tillögur að lagabreytingum verði síðan ræddar á fundinum í febrúar. Formanni falið að kanna möguleika á að halda stjórnarfund á skrifstofunni við Óðinstorg í mars. Aðalfundur verði síðan boðaður í apríl.

Sigurbjörg sagði frá ferð félaga í Glóðinni til Kanaríeyja í nóvember og þátttöku á fimleikamóti þar. Mikil starfsemi er á vegum Glóðarinnar og gengur vel að undirbúa þátttöku á landsmóti á Akureyri í sumar og fleiri erlendum mótum á haustmánuðum. Hún sagði að fulltrúar Glóðarinnar hefðu verið 34 en alls 187 frá Íslandi. Þátttakendur voru frá Danmörku og Finnlandi. Sagði hún skemmtilega sögu um finnska hópinn. Aðalfundur Glóðarinnar verður haldinn 22. janúar nk og var varaformanni falið að bera Glóðinni kveðjur frá Norræna félaginu í Kópavogi.

Paul sagði frá þátttöku sinni á vinabæjarmóti í Asker í Noregi með Norræna félaginu í Garðabæ.

Birna gerði grein fyrir fundi vinabæjarnefndar Kópavogs sem haldin var í árslok og boðuðum stjórnarfundi um næstu mánaðarmót.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl 12.

06.01.2009 18:22

Næsti stjórnarfundur

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi er boðuð til  fundar laugardaginn 17. janúar 2009 kl 12:00 til 13:00.

Fyrirhuguð dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar.
2. Skráning netfanga félagsmanna.
3. Verkefni framundan.
4. Önnur mál.

08.12.2008 22:04

Stjórnarfundur 22. nóv. 2008

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til fundar laugardaginn 22. nóvember 2008.

Gerð var grein fyrir formannafundi Norrænu félaganna sem haldinn var laugardaginn 15. nóvember á skrifstofu Norræna félagsins að Óðinstorgi í Reykjavík. Þann fund sátu Birna Bjarnadóttir, formaður, Gréta B Eiríksdóttir, ritari og Paul Jóhannsson meðstjórnandi. Á þeim fundi var nýr framkvæmdastjóri NF kynntur en það er Ásdís Eva Hannesdóttir og var hún boðin velkomin til starfa.

Á formannafundinum komu fram skýrslur um helstu verkefni félaganna og vakti starf NF á Akureyri nokkra athygli en stjórn félagsins hefur virkjað netið til fundarboðunar félagsmanna. Stjórnin NF í Kópavogi tók ákvörðun um að stofna netfang félagsins og leggja vinnu í að skrá netföng félagsmanna sem það samþykkja.

Rætt var um boð NF í Keflavík og stjórnin samþykkti að stjórn og makar sæktu það jólaboð sem halda á 4. desember en stjórn NF í Kópavogi hélt slíkt boð í desember 2005.

Margrét Björnsdóttir gerði grein fyrir ráðstefnu sem hún sat í Óðinsvéum í september um umhverfismál. Á þeim fundi hitti hún ma formann NF í Óðinsvéum Skúla Fjalldal.

Fram kom að Hjörtur Pálsson, varamaður í stjórn hefur hlotið prestvígslu og hefur tekið við starfi sem slíkur með aðsetur að Hólum í Hjaltadal. Stjórnin óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi en vonar jafnframt að mega eiga von á honum í heimsókn á fundi og aðrar samkomur félagsins þegar hann á þess kost.

Formaður gerði grein fyrir fundi Vinabæjarnefndar Kópavogs sem haldinn var 20. nóvember sl. Þann fund sat Björn Þorsteinsson sem nú hefur látið af störfum sem sviðstjóri menningarsviðs. Formaður NF flutti Birni kveðjur Norræna félagsins og þakkir fyrir samstarfið á liðnum árum. Linda Udengard mun vera vinabæjarnefndinni innanhandar í störfum sínum.

18.05.2008 21:18

Fyrsti stjórnarfundur starfsársins

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til fyrsta fundar starfsársins laugardaginn 17. maí. Stjórnin skipti með sér verkum, það er óbreytt skipan frá síðasta starfsári. Varaformaður er Margrét Björnsdóttir, gjaldkeri er Hrafnhildur Jósefsdóttir og ritari Gréta B. Eiríksdóttir.
Rætt var um fundaáætlun stjórnar á árinu og samþykkt að efna til samverustundar í Norræna vinabæjarlundinum við Digraneskirkju, sunnudaginn 22. júní kl 16:00. Rætt var um hugmynd að uppsetningu skiltis með upplýsingum um fjarlægðir til vinabæja Kópavogs. Samþykkt að ritari stjórnar sendi erindi þessa efnis til bæjaryfirvalda en upplýsingar liggja þegar fyrir frá Paul Jóhannssyni.
Rætt um hugmyndir sem fram komu á aðalfundi varðandi notkun netpósts við fundarboðun til félagsmanna og uppfærslu félagaskrár en aðalskrifstofa Norræna félagsins á Íslandi annast félagaskrá, skráningu nýrra og beiðnir um úrsagnir. Félagsmenn hafa nú fengið upplýsingar um heimasíðu Norræna félagsins í Kópavogi og samþykkti stjórnin að leitast við að setja allar upplýsingar um félagsstarfið þar inn, enda er innlit á síðuna nokkuð stöðugt.
Rætt um frekari vinnslu á heimasíðunni sem er í blogsíðuformi en nýtist ágætlega og er hagkvæmur kostur. Stjórnin samþykkti tillögu formanns um að tengjast jafnframt ennfrekar heimasíðu Norræna félagsins á Íslandi.
Fleira gerðist ekki.

23.04.2008 18:14

Stjórnarfundur 19. apríl 2008

Fundur í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi var haldinn laugardaginn 19. apríl kl 11:00 til 13:20.

Rætt var um framlagðar breytingartillögur við lög félagsins. Farið var ítarlega yfir hverja grein og lögin borin saman við lög Norræna félagsins á Íslandi. Eftir nokkrar umræður var samþykkt að vinna tillögurnar ennfrekar og leggja fyrir stjórnarfund að því loknu.

Samþykkt var að boða til aðalfundar Norræna félagsins í Kópavogi miðvikudaginn 30. apríl. Samþykkt að senda fundarboð með bréfi til allra félaga með 7 daga fyrirvara. Undirbúningi aðalfundar var lokið.

Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með samkvæmi sem haldið var hjá varaformanni stjórnar föstudaginn 18. apríl í tilefni heimsóknar framkvæmdastjóra Norræna félagsins í Danmörku.

Formaður gerði grein fyrir fundi með stjórn Glóðarinnar sem haldinn var 1. mars sl. um norrænt íþróttamót í Kópavogi. Stjórn Glóðarinnar lagði til að mótinu yrði frestað um 2 ár þar sem lengri tíma og meiri vinnu þyrfti til undirbúnings slíku móti. Glóðin mun hins vegar halda íþróttamót á fyrrum fyrirhuguðum tíma í júní og hafa þegar danskir og íslenskir þátttakendur skráð þátttöku. Stjórn Norræna félagsins lagðist ekki gegn þessari ósk stjórn Glóðarinnar og óskar þeim velfarnaðar.

Formaður gerði grein fyrir heimsókn formanns Norræna félagsins í Óðinsvéum sem fyrirhuguð er í maí nk.

Fleira gerðist ekki.

23.04.2008 17:11

Stjórnarfundir í febrúar og mars 2008

Stjórnarfundur Norræna félagsins í Kópavogi sem fyrirhugaðir voru 23. febrúar og 29. mars féllu niður, en stjórnarmenn voru í net- og símasambandi á tímabilinu.
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 23
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 87658
Samtals gestir: 33055
Tölur uppfærðar: 26.2.2021 18:49:51