Flokkur: Saga NF Kópavogi

25.01.2008 22:46

Ávarp Hjartar Pálsson í tilefni 45 ára afmælis NF í Kópavogi

Um Norræna félagið í Kópavogi

Örstutt ágrip af sögu þess og fáeinar athugasemdir, flutt á 45 ára afmælissamkomu

í Gerðarsafni miðvikudaginn 5. desember 2007.

Gott Norrænafélagsfólk og aðrir gestir!

Þó að ég hafi ekki haft undir höndum nema eina fundargerðabók Norræna félagsins í Kópavogi, sem nær yfir tímabilið 15. janúar 1981-25. apríl 1995 og hinar finnist því miður ekki nú þykist ég vita og muna rétt frá fyrri tíð að aðalhvatamaðurinn að stofnun þess 5. desember 1962 hafi verið fyrsti formaður þess, Hjálmar Ólafsson kennari, sem 1962-70 var jafnframt bæjarstjóri hér í Kópavogi. Það var reyndar honum líkt og mér þykir sennilegt að hann hafi m.a. séð sér leik á borði að reyna að koma á öflugu vinabæjastarfi með því að láta Kópavogsbæ og Norrænafélagsdeildina - hið opinbera og frjáls félagssamtök - leggjast á eitt í því skyni.

Ég nefni þetta hér af því að það tókst a.m.k. hér áður fyrr, en mér er vel kunnugt að mjög er misjafnt hvernig norrænu vinabæjasamstarfi hefur verið hagað bæði hér á landi og annars staðar. Sums staðar sinnir því annaðhvort bæjarfélagið eitt eða félagsdeildin ein þar sem henni er á annað borð til að dreifa og verður stundum vart við ríg og sambandsleysi þar á milli, annars staðar ríkir góð samvinna og gagnkvæmur stuðningur. Hér hefur vinabæjanefndin sem í eiga sæti fulltrúar bæjar og félags og er samráðsvettvangur þeirra átt sinn þátt í að skapa nauðsynleg tengsl milli félags og bæjar og þar sem þau eru í bestu lagi og eindrægni ríkir álít ég reynsluna hafa sýnt mestan og víðtækastan árangur af vinabæjasamstarfi og það hafa náð til flestra. Ég bendi líka á það í þessu sambandi, eins og kjör fyrsta formannsins sýnir, að löngum hafa bæjarfulltrúar eða fólk með einhvers konar sterk tengsl við bæinn gegnt formennsku eða öðrum störfum fyrir félagið. Svo er enn og hefur sumt af því fólki jafnframt verið býsna mikil félagsmálatröll, bæði karlar og konur. Mörg þeirra eru ekki lengur á meðal okkar, en þakklát í huga höldum við minningu þeirra í heiðri.

Hjálmar Ólafsson var formaður tvívegis, fyrst frá stofnun 1962 fram til 1968, en þá tók við formennskunni Andrés Kristjánsson ritstjóri og skólafulltrúi sem var formaður fjögur ár, til 1972. Hjálmar var þá aftur kjörinn formaður og var það til dauðadags 27. júní 1984. Hann gegndi því formannsstarfi samtals 18 ár sem er býsna langur tími í sögu 45 ára félags, en ég er ekki í vafa um að það sem sérstaklega kveikti þann norræna áhugaeld sem í brjósti hans brann upp frá því var mikið norrænt stúdentamót sem hér var haldið sumarið 1949 þegar hann var 24 ára og hann tók þátt í af lífi og sál. Á síðara formannstímabili sínu var Hjálmar jafnframt formaður Norræna félagsins á Íslandi síðustu tíu árin og loks framkvæmdastjóri þess einnig og sat í framkvæmdaráði Sambands norrænu félaganna (FNF). Sem kennari og konrektor umgekkst hann þá jafnframt fjölda ungs fólks, en á fyrra tímabilinu var hann sem bæjarstjóri í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hafði því að mörgu leyti óvenju góðar aðstæður til að fylgjast með og þoka málum áfram. Þoka málum áfram er reyndar ekki rétta orðið í því sambandi, því að Hjálmar var harðduglegur og hugmyndaríkur hugsjónajaxl sem vildi drífa hlutina áfram og var óhræddur við átök, en engum sem höf'ðu af honum kynni eða áttu við hann samstarf blandaðist hugur um að betra var að hafa hann með sér en móti. Síst er þetta sagt honum til lasts, enda var það hann sem virkjaði mig til starfa í þágu Norræna félagsins, þar sem ég átti eftir að koma töluvert víða við sögu, en ég var svo heppinn að aldrei bar skugga á samstarf okkar.

Kynni okkar tókust meðan ég sat í málaársnefnd Norræna félagsins 1978-81, en á útmánuðum það ár bað hann mig að setjast í stjórn Kópavogsfélagsins í stað Gunnars Guðmundssonar skólastjóra sem þá var nýfallinn frá, en verið hafði varaformaður, og erfði ég þá stöðu. Því kom formennskan óvænt í minn hlut þegar Hjálmar varð bráðkvaddur í júnílok 1984, en hann hafði árið áður verið kosinn formaður til tveggja ára. Ég var á förum til útlanda um haustið og bjóst við að verða lengur en raun varð á. Þegar ég kom aftur heim árið eftir, 1985, og kjörtími fyrri formanns var á enda var ég kosinn formaður, en meðan ég var í burtu var Sólveig Runólfsdóttir gjaldkeri mest í fyrirsvari fyrir félagið. Formaður var ég síðan til 1991. Þá hvarf ég úr stjórn hér í Kópavogi eftir áratug, enda hafði þá reglan sem takmarkar formannssetu við 6 ár samfleytt verið í lög leidd. Ég hafði þá verið formaður sjö ár og bjóst ekki við að lenda aftur í stjórn. Því verð ég að taka skýrt fram, þar sem ég stend nú hér og rek þessa sögu, að ég sóttist ekki eftir því, en kunni ekki við að neita fyrir aðalfundinn í vor þegar ég var beðinn að hlaupa undir bagga í varastjórn.

Eftirmaður minn sem kosinn var í formannssæti haustið 1991 var Björn Ólafsson verkfræðingur og fyrrum bæjarfulltrúi, en hann varð ekki langlífur, lést snögglega haustið eftir. Kristján Guðmundsson fyrrum bæjarstjóri og bæjarfulltrúi, sem þá var varaformaður, sat því uppi með formennskuna eins og ég 9 árum fyrr, en var kosinn formaður 1992 og gegndi starfinu til 2005, er Kjartan Sigurjónsson leysti hann af árlangt. Núverandi formaður, Birna Bjarnadóttir. fyrsta konan sem kjörin hefur verið til þess starfa, tók við af honum í fyrra.

Í félögum eins og Norræna félaginu verða alltaf hæðir og lægðir í starfi, stöðnun og fjörsprettir á víxl. Ástæðulaust er að draga dul á að slík áhugamannafélög berjast nú mörg í bökkum og eiga í vök að verjast vegna breyttra tíma, breyttra aðstæðna og hugsunarháttar. Það er t.d. liðin tíð að norrænu félögin geti safnað þúsundum félagsmanna út á afsláttarferðir til áfangastaða á Norðurlöndum í síharðnandi samkeppni eins og áður var, enda var aldrei til lengdar mikið á slíka félaga að treysta þegar engin var lengur gulrótin til að rétta þeim. Nú sem fyrr eru það þeir sem eiga einhvern snefil af norrænni hugsjón, þykir vænt um nágrannaþjóðirnar á Norðurlöndum eða hafa haft af þeim einhver kynni og telja sér hag og yndi að því að rækta sambandið við þær og stofna til persónulegra eða faglegra kynna og vináttu sem bera uppi starfið í félögum eins og okkar. Þeir sem hafa áhuga á norrænum kynnum og samstarfi og finna í því skemmtun og lífsfyllingu. Þeir sem gera sér grein fyrir því að væri skyndilega frá þeim tekið allt það þéttriðna samstarfsnet sem skapað hefur norrænt módel á flestum sviðum þætti skarð fyrir skildi. Það módel og norræna samvinnu sköpuðu ekki norrænir stjórnmálamenn einir eftir seinna stríð; fyrir því höfðu norrænu félögin talað frá því að þau voru stofnuð í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar, þótt skandínavisminn svokallaði ætti sér eldri rætur sem sögulegt hugtak og hreyfing.

Ég man vel um hvað umræðan snerist um það leyti sem ég lét af formennsku og dró mig að mestu út úr starfi Norræna félagsins fyrir hálfum öðrum áratug eða svo. Óvissa ríkti um norræna samvinnu og þar með starf og framtíð norrænu félaganna. Og það var togað í tvær áttir. Hrun Sovétríkjanna og þróun mála við Eystrasalt opnaði alla glugga í austur og Eystrasaltsríkin horfðu til vesturs. Haldnir voru fundir og ráðstefnur þar sem spáð var í spilin. Sumir óttuðust um norræna samvinnu og að bakland okkar klofnaði í Östnorden og Vestnorden sem var hugtak sem æ oftar heyrðist nefnt. Þeir sem kærðu sig kollótta blésu á allar áhyggjur sögðu: Við vinnum bara saman í Evrópusambandinu - eins raunhæft og það nú var - því að Evrópska efnahagssvæðið var þá nýr veruleiki og stækkandi Evrópusamband tímanna tákn og Brüssel togaði fast - þar sem sumir voru með, en aðrir ekki. Við þetta bættist að hjá okkur voru erfiðleikar og átakatímar í landssamtökunum og ekki alltaf bjart yfir. Þetta nefni ég nú af því að ekkert stendur í stað og enn eru breyttir tímar. Um daginn var mér sagt að nú væri andinn sá innan Sambands norrænu félaganna og í hinu opinbera norræna samstarfi að mörgum þætti fullreynt að Brüssel væri ekki sú gæfudeigla norrænnar samvinnu sem eitt sinn var talið og afturhvarf væri hafið til vaxandi samstarfs Norðurlandaþjóðanna heima fyrir að breyttu breytanda. Og ég fæ ekki betur séð en töluvert líf sé enn í landssamtökunum og okkar 45 ára gömlu félagsdeild hér í Kópavogi og nýjar hugmyndir á sveimi.

Ég býst við að ykkur þyki þetta formannatal frekar rýrt í roði sem söguágrip félagsins og e.t.v. fullpersónulegt og lái ykkur það ekki. En mér er nokkur vorkunn og ég spyr: Hvar eru fundargerðabækur félagsins aðrar en sú sem ég nefndi í byrjun? Hvar er sagan, sannanirnar og heimildirnar? Fyrir því bið ég ykkur að hafa augu og eyru opin og koma þeim gögnum í hendur stjórnarinnar ef af þeim skyldi fréttast.

Í fundargerðabókinni einu sem nær yfir 14 ár - og það einmitt þau sem ég þekki best í sögu félagsins og ég hef því getað stuðst við auk þess sem ég veit eða man - má þrátt fyrir allt sjá að á þeim tíma var oft býsna fjölbreytt starf í Norræna félaginu í Kópavogi og verkefni bæði smá og stór: Fyrirgreiðsla við einstaklinga og hópa, m.a. skólanemendur og ungt fólk, íþróttafólk, lýðháskólanema, kóra og skólahljómsveit, ferðalög, tónleikar, fundir og menningarvökur. Svo dæmi séu tekin mætti nefna þriggja klukkutíma fund með líflegum umræðum í félagsheimilinu um norræna samvinnu í breyttri Evrópu í örstuttri formannstíð Björns Ólafssonar haustið 1991 og myndarlega dagskrá til heiðurs Jóni úr Vör sjötugum sem við stóðum fyrir 1987 áður en þingið veitti honum heiðurslaun og bærinn gerði hann að heiðursborgara, margþætt vinabæjasamstarf, vinabæjamót heima og heiman og gangkvæmar heimsóknir, styrkir og móttaka, útvegun sumarvinnu undir merkjum Nordjobb o.s.frv. Svona mætti áfram halda með fundargerðabókina einu, hvað þá ef heimildir væru til að draga upp heildarmynd af starfi félagsins í 45 ár, en þær skortir.

Sjálfur minnist ég með mikilli ánægju nokkurra hápunkta sem sitja í minninu og ég fékk að njóta í skjóli félagsins á árum áður, svo sem myndarlegs vinabæjamóts hér heima og Finnlandsferðar í formannstíð Hjálmars, boðsferðar til Óðinsvéa á 1000 ára afmæli borgarinnar með fulltrúum bæjaryfirvalda, ferðar á vinabæjamót í Tammerfors þegar Tampere-húsið var vígt og ég hlustaði þar tvívegis á Finlandiu Sibeliusar sama daginn fyrir utan allt annað og 25 ára afmælishátíðar okkar í Kópavogskirkju sem er jafnaldri félagsins. En nú er mál að linni og ég óska okkur öllum til hamingju með þetta 45 ára fmælisbarn og óska því langlífis.

Hjörtur Pálsson

  • 1
Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 23
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 87639
Samtals gestir: 33055
Tölur uppfærðar: 26.2.2021 17:53:37