Flokkur: Norræni vinabæjarlundurinn

19.06.2008 22:37

Samvera í norræna vinabæjarlundinum

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi boðar til samverustundar í norræna vinabæjarlundinum í Kópavogi, sunnudaginn 22. júní kl 16:00. Lundurinn er staðsettur vestan megin við Digraneskirkju en aðkoma er ágæt fyrir akandi af bílastæði kirkjunnar og fyrir gangandi af göngustígnum í norðanverðum Kópavogsdal frá Digranesheiði eða Fífuhvammi. Fólk er hvatt til að klæða sig samkvæmt veðri og taka með sér kaffibrúsann.
Við munum ganga um lundinn og kanna aðstæður, ekki síst að huga að þeim trjám sem gróðursett voru á síðasta sumri. Vonast er til að sem flestir félagar og velunnarar lundarins komi saman nokkra stund og minnist norrænnar samvinnu.

25.01.2008 22:39

Ávarp Hjartar Pálssonar í vinabæjalundinum 2007

Vinabæjalundur

Ávarp á jónsmessunni 2007 í vinabæjalundinum í Kópavogi

á vegum Norræna félagsins þar

Ágætu félagar og aðrir viðstaddir!

Það er af skiljanlegum ástæðum draumur allra sem ákveða að hittast á samkomum úti undir beru lofti að veðrið komi ekki í veg fyrir að af því geti orðið, og ekki þurfum við að kvarta yfir því á þessum jónsmessudegi. Það hefur sannarlega leikið við okkur síðustu daga, enda hef ég notað þá til þess að vinna í garðinum við húsið mitt hér austast í bænum í stað þess að sitja við skrifborð sem endranær er gjarnan hlutskipti mitt. Meðan ég var að krafla í moldinni, reyta illgresi, slá og snyrta lóðina gafst mér kjörið tækifæri til að hugsa um Norræna vinabæjalundinn þar sem við erum nú stödd og hvað hann táknaði - og fannst lundurinn sem ég hef verið að reyna að skapa kringum eigið hús kjörin umgjörð þeirra hugleiðinga.

Ef við höldum þessari líkingu við garðinn, þá erum við með þátttöku í alls konar félagsstarfi að gefa öðrum svolítið af tíma okkar og kröftum til þess að færa út einkalóðina okkar, stækka og fegra garðinn í þeirri von að þar komist fleiri fyrir og geti notið lífsins með okkur og að góð kynni, vinátta og samstarf geti í senn orðið okkur til gleði, gagns og lífsfyllingar af því að við erum nú einu sinni samfélagsverur sem þurfum hvert á öðru að halda og maður er manns gaman. Það er auðvitað aðeins stigmunur, en ekki eðlis á því að líta fyrst til nágranna sinna eins og vinir norræns samstarfs telja sjálfsagða frumskyldu og að líta á heimsþorpið sjálft sem einn stóran garð þar sem gott fólk á sér þann draum að mannkynið geti lifað saman í friði, sátt og eindrægni og hvert okkar haft stuðning af hinu. Hvorug hugmyndin útilokar hina og gleymum því ekki heldur að draumar og hugsjónir glata ekki gildi sínu þó að ganga vilji grátlega seint að láta þær rætast.

Það er stundum sagt að útþráin sé rík í brjóstum eyjarskeggja hvar sem er í heiminum, löngun þeirra sterk til þess að komast út yfir hafið og hitta nágranna sína - eða fá þá í heimsókn. Síst erum við Íslendingar undantekning frá þeirri reglu, og þetta þekkjum við mörg vel sem kynnst höfum norrænu samstarfi og tekið þátt í því okkur til gagns og ánægju. Vinabæjasamstarfið er ein af óteljandi samskiptaleiðum á þeim vettvangi.

Þegar ég lá á hnjánum í garðinum mínum um daginn og var að hugsa um hvað ég ætti að segja á þessum stað og stund brosti ég út í annað og var að hugleiða ýmsar skrítnar tilviljandir lífsins og meðal annars þá hvers vegna ég var beðinn um það. Það gerðist rétt sisona í tveggja manna tali fyrir nákvæmlega hálfum mánuði þegar Gréta Eiríks vara að segja mér frá því hvað til stæði og við fórum að spjalla um vinabæjalundinn og rifja upp hvað við vissum um sögu hans og hvað ekki og ég vissi svo ekki fyrri til en ég var búinn að lofa því að kynna mér það betur og hafa hér um það nokkur orð viðstöddum til fróðleiks. Umhverfið og aðstæðurnar á því augnabliki voru ekki síður viðeigandi en í garðverkunum heima á dögunum, því að við vorum að koma frá gróðursetningu í Finnmörk, reit Suomi-félagsins í Heiðmörk, en í stjórn þess sitjum við Gréta bæði og rann því blóðið til skyldunnar að sinna lundi Finna og Finnlandsvina á Íslandi.

Um forsögu Norræna vinabæjalundarins hér man ég það annars helst frá þeim árum sem ég átti sæti í stjórn Norrænafélagsdeildarinnar í Kópavogi og starfaði þar mest, lengst af sem formaður, að þegar ég heyrði orðið fyrst nefnt vissi ég ekki vel hvað við var átt, en var fljótt leiddur í allan sannleik um það. En á okkar fjörur rak þá hugmyndina um slíkan lund oftast og eftirminnilegast í máli mikils höfðingja og eldhuga úr röðum norrænafélagsfólks í vinabæ okkar, Norrköping. það var Lasse, Lars Bergsten kennari, sem þar var um skeið starfsamur og áhrifamikill lykilmaður í þeim hópi. Honum kynntist ég vel - og við sem þekkjum hann best og fylgdumst líka með því hvernig hann færði út kvíar norræns samstarfs og vináttu til Eystrasaltslandanna, þegar þau öðluðust sjálfstæði sitt á ný, og rétti þá einkum Lettum bróðurhönd - við munum að hann talaði gjarnan fyrir þeirri hugmynd að vinabæirnir Kópavogur og Norrköping kæmu sér upp vinabæjalundum sem ytra tákni og áminningu á almannafæri um gagn og gildi vináttu og norræns samstarfs og hvettu aðra bæi í sínum keðjum til þess að gera slíkt hið sama. Reyndar setti hann markið hátt og lagði til að bæirnir í hvorri vinabæjakeðju færðu hver öðrum gagnkvæmar gjafir, útilistaverk eða "skúlptúra" sem fundinn yrði staður í lundinum á hverjum stað með skildi um uppruna listaverkanna, höfund og gefanda. Hefði af því orðið sæjum við nú hér í okkar lundi eitt listaverk frá hverjum vinabæ Kópavogs og vissum að í öllum vinabæjum okkar, Angmassalik, Klakksvík, Mariehamn, Norrköping, Óðinsvéum, Tammerfors og Þrándheimi, stæðu líka verk sem héðan væru ættuð. Þetta kostar að vísu sitt, en annað kemur á móti, og hjá stóru sveitarfélagi er það auðvitað fyrst og fremst spurning um seiglu, metnað og vilja, hvort slíkt er gert. Það hefur ekki enn orðið hér, en úr því er alltaf unnt að bæta síðar, sé áhugi fyrir hendi, og ég nefni þetta hér til upplýsingar bæði til að benda á það og af sögulegum ástæðum. Á einum stað á landinu er mér kunnugt um að þessi hugmynd hafi náð fram að ganga, þótt að vísu standi listaverkin þar ekki í lundi, heldur við göngugötu. Það er í mínum gamla heimabæ, Akureyri, þar sem þið getið skoðað þau vestanmegin Hafnarstrætis, nálægt Ráðhústorgi, næst þegar þið eigið þar leið um, ef þið hafið ekki þegar gert það.

Ég get sem sé staðfest að hugmyndin um norrænan vinabæjalund hér í Kópavogi var þegar til umræðu í stjórn Norræna félagsins á mínum formannsárum, í fyrrgreindri mynd, þótt ekki væri til hans stofnað fyrr en litlu síðar. Þegar það gerðist var Kristján Guðmundsson, fyrrum bæjarstjóri, formaður félagsins. Til hans fór ég í smiðju og spurði hann um málið, sem hann kvaðst hafa borið formlega upp í stjórn þess, og hann vísaði mér á stutta greinargerð um lundinn sem hann samdi og birtist á sínum tíma í Sveitarstjórnarmálum. Þar segir hann m.a. á þessa leið:

"Öllum í stjórninni þótti tilhlýðilegt að marka fallegan stað á opnu svæði í bæjarlandinu fyrir skógarlund, þar sem komið væri fyrir greinargóðu skilti með nöfnum vinabæja okkar og bæjarmerki þeirra.

Tillaga þessi var kynnt og samþykkt í vinabæjanefnd bæjarins, en í henni sitja þrír fulltrúar kosnir af bæjarstjórn, formaður Norræna félagsins og bæjarstjóri, en hann er sérstakur tengiliður við vinabæi okkar.

Á vinabæjamóti í Kópavogi sumarið 1993 var fyrst plantað í þennan fallega reit, sem er [eins og þið sjáið nú best og vitið - innskot H.P.] í vestanverðum Digraneshlíðum, í næsta nágrenni við Digraneskirkju.

Að loknu þessu vinabæjamóti [segir Kristján - innskot H.P.] barst mér bréf frá bæjarstjóranum í Odense, Verner Dalskov, þar sem hann þakkar eftirminnilega stund þegar við vorum öll saman komin þarna í hlíðinni og gróðursettum hvert og eitt eina birkiplöntu og eina ösp.

Þessi athöfn hafði þau áhrif á Verner að hann setti saman þessa vísu sem hann sendi í umræddu þakkarbréfi:

                    
Et træ er plantet i Islands jord
                    
af venner fra nordiske byer.
                    
I skoven det vokser sig stærk og stor
                    
og venskabs-båndet fornyer.
                    
Rødderne fæstnes i jordens muld
                    
og grene med bladene grønnes.
                    
I sol og i blæst det tillidsfuldt
                    
vil vise at venskaber lønnes.

Ætlunin er þegar gesti ber að garði frá vinabæjum okkar að sumarlagi, þá verði plantað þarna til eflingar og viðhalds lundinum.

Það var m.a. gert á 50 ára lýðveldishátíðinni 1994, en þá bauð bæjarstjórn Kópavogs einum fulltrúa frá hverri bæjarstjórn vinabæjanna."

Hér líkur þessari tilvitnun, en ég vona að þið fyrirgefið mér þótt ég gertir þá játningu í lokin, að sjálfur hef ég með árunum fundið það betur og betur hve ástin á grónum lundi er miklu ríkari í mér en aðdáunin á blásnum mel. Og ég hef velt fyrir mér hvaðan þetta sé komið. Allir þrá hlýju og skjól; það er ósköp mannlegt að vilja búa sér þannig umhverfi. Gleymum öllum akademískum deilum um uppruna Íslendinga og blöndun okkar í aldanna rás, en enginn mun neita því að til norrænna manna teljumst við og eigum margt til þeirra að sækja.

Nú vill svo til að ég er fæddur og að nokkru ættaður Fnjóskadal. Móðir mín hafði "græna fingur", og ég er ekki frá því að ég hafi erft gróðurást mína að einhverju kleyti frá henni. Í Fnjóskadal má sjá bæði blásinn mel og einn af helstu skógum landsins. Landnámsmaðurinn þar hét Þórir snepill Ketilsson, Norðmaður, en afi hans í móðurætt var lögmaður af Svíaríki. Um Þór segir Landnáma m.a.:

"Þórir nam Kaldakinn millum Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs; hann nam þar eigi yndi og fór á brott. [...] Síðan nam hann Hnjóskadal allan til Ódeilu og bjó að Lundi; hann blótaði lundinn."

Þessi fáu orð segja sína sögu. Honum hefur þótt kalt í Kinninni og flutti sig að Lundi. Fnjóskadalur með skógi sínum hefur minnt hann meira á heimkynnin en Kaldakinn.

Aldir liðu, en 1952 var danski rithöfundurinn Martin A. Hansen á ferð um Ísland í snjó og vorþræsingum og fann þá allt í einu að trjáleysið í Húnavatnssýslu var að gera hann brjálaðan. En þegar í Fnjóskadal kom fór honum líkt og landnámsmanninum forðum. Þá var veðrið orðið gott, lengra komið fram á og Hansen og ferðafélagi hans, málarinn og teiknarinn Sven Havsteen-Mikkelsen, voru á leið til Akureyrar að austan í blæjujeppa:

"Við vorum komnir svo langt inn eftir, að hvíta álfabyggðin Akureyri blasti við beint á móti okkur hinum megin við fjörðinn, þegar við fundum að við gátum ekki hugsað þá hugsun til enda, að við ættum aldrei eftir að sjá Fnjóskadal framar, aldrei eftir að horfa út yfir blánandi daladjúpin, þar sem landslagið minnti okkur meira á hjarta Noregs en á nokkrum öðrum stað, sem við höfðum séð á Íslandi, og snerum við í einu vetfangi...."

Já, góðir hálsar, svona er skógurinn, lundurinn, ríkur í minningum okkar, trú og menningararfleifð. Þetta er bara eitthvað í genunum. Það sýnir reynsla okkar sjálfra og vina okkar á Norðurlöndum eins og þeir lýsa henni. Við biðjum skaparann og allar góðar vættir að vernda þennan norræna vinabæjalund, sem nú hefur verið tekið tak í hreinsun og hirðingu.

Hann hlúir að rótunum og skapar skjól. Það gerir norrænt samstarf og vinátta líka og þegar mikið liggur við hefur hún unnið margt gott verk og á örlagastundum skipt sköpum í sögu þeirra og félagslegri og menningarlegri uppbyggingu. Vonandi verður lundurinn notaður til samkomuhalds um ókomin ár þegar við á, eins og til stóð í upphafi. Og vonandi hlúa Norræna félagið og bæjrayfirvöld vel að honum, minnug skyldna sinna og hlutverks í keðju norrænna þjóða.

Hjörtur Pálsson

  • 1
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 23
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 87658
Samtals gestir: 33055
Tölur uppfærðar: 26.2.2021 18:49:51