Færslur: 2008 Janúar

25.01.2008 23:12

Stjórnarfundur 19. janúar 2008

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi kom saman til fundar laugardaginn 19. janúar 2008 kl 12:00. Sex stjórnarmenn og varamenn voru mættir.

Rætt var um atburði síðasta mánaðar, fjárhagsstöðu félagssjóðs, heimasíðu NF í Kópavogi, næstu stjórnarfundi og önnur mál.

Birna og Sigurbjörg gerðu grein fyrir fundum vinnuhóps um  Norrænt heilsumót. Samþykkt að Hrafnhildur mætti á fund hópsins laugardaginn 26. janúar vegna umsókna. Formanni NF hefur borist boð um setu á aðalfundi Glóðar sem haldinn verður 24. janúar nk. Samþykkt að Birna og Paul mæti á fundinn sem fulltrúar NF.

Birna ræddi um tilkomu heimasíðu NF í Kópavogi sem er sett upp á www.123.is og er einföld leið til að miðla upplýsingum um störf félagsins. Stjórnin samþykkti að staðfesta þessa síðu og vinna frekar að nýtingu hennar. Jafnframt að fara þess á leit að slóð síðunnar verð tengd www.Norden.is sem er heimasíða Norræna félagsins.

Birna ræddi um lög félagsins sem væru óbreytt frá stofndegi 1962. Lagði hún til að Margréti yrði falið að yfirfara lögin með hliðsjón af lögum Norræna félagsins og færð til dagsins í dag. Tillögur að breytingum yrði lagðar fyrir næsta stjórnarfund til afgreiðslu stjórnar og undirbúnings aðalfundar 2008. Samþykkt.

Rætt um næstu stjórnarfundi sem verða 23. febrúar og 29. mars, en aðalfundur verður haldinn í apríl. Fram kom tillaga frá Margréti um að fá utanaðkomandi ræðumann á aðalfundinn og auglýsa hann opinn, en halda síðan venjuleg aðalfundarstörf að því loknu. Margréti falið að annast þann undirbúning.

Fleira gerðist ekki.

25.01.2008 22:52

Vinnuhópur um norrænt heilsumót 2008

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi og stjórn Íþróttafélagsins Glóðin hafa tilnefnt fulltrúa í vinnuhóp til undirbúnings norræns heilsumóts sumarið 2008. Aðdragandi þess var tillaga sem kom fram í kjölfar fundar fulltrúa stjórna Norrænu félaganna í vinabæjum Kópavogs sem haldinn var í Tampere í september sl. Gréta Eiríksdóttir sótti fundinn fyrir hönd NF í Kópavogi.

Norræna heilsumótið er ætlað þátttakendum 50 ára og eldri sem hafa að leiðarljósi "Hreyfingu, næringu og heilsu". Á mótinu verður keppt í nokkrum íþróttagreinum, haldin fræðsluerindi og kvöldsamkoma. Norræna heilsumótið verður haldið í fyrsta sinn í Kópavogi dagana 14.-17. júní 2008.

Vinnuhópurinn er skipaður Grétu Eiríksdóttur, Birnu Bjarnadóttur og Hrafnhildi Jósefsdóttur fyrir hönd Norræna félagsins en fulltrúar Glóðarinnar eru Sigríður Bjarnadóttir, Lórens Rafn Kristvinsson og Margét Bjarnadóttir. Verkefnastjóri er Sigurbjörg Björgvinsdóttir, en hún er varamaður í stjórn NF í Kópavogi og formaður fræðslunefndar Glóðarinnar. Vinnuhópurinn hefur þegar haldið 3 fundi, hefur lagt fram drög að dagskrá og kostnaðaráætlun. Þegar hafa skráð þátttöku sína á mótinu fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi og Íslandi.

25.01.2008 22:46

Ávarp Hjartar Pálsson í tilefni 45 ára afmælis NF í Kópavogi

Um Norræna félagið í Kópavogi

Örstutt ágrip af sögu þess og fáeinar athugasemdir, flutt á 45 ára afmælissamkomu

í Gerðarsafni miðvikudaginn 5. desember 2007.

Gott Norrænafélagsfólk og aðrir gestir!

Þó að ég hafi ekki haft undir höndum nema eina fundargerðabók Norræna félagsins í Kópavogi, sem nær yfir tímabilið 15. janúar 1981-25. apríl 1995 og hinar finnist því miður ekki nú þykist ég vita og muna rétt frá fyrri tíð að aðalhvatamaðurinn að stofnun þess 5. desember 1962 hafi verið fyrsti formaður þess, Hjálmar Ólafsson kennari, sem 1962-70 var jafnframt bæjarstjóri hér í Kópavogi. Það var reyndar honum líkt og mér þykir sennilegt að hann hafi m.a. séð sér leik á borði að reyna að koma á öflugu vinabæjastarfi með því að láta Kópavogsbæ og Norrænafélagsdeildina - hið opinbera og frjáls félagssamtök - leggjast á eitt í því skyni.

Ég nefni þetta hér af því að það tókst a.m.k. hér áður fyrr, en mér er vel kunnugt að mjög er misjafnt hvernig norrænu vinabæjasamstarfi hefur verið hagað bæði hér á landi og annars staðar. Sums staðar sinnir því annaðhvort bæjarfélagið eitt eða félagsdeildin ein þar sem henni er á annað borð til að dreifa og verður stundum vart við ríg og sambandsleysi þar á milli, annars staðar ríkir góð samvinna og gagnkvæmur stuðningur. Hér hefur vinabæjanefndin sem í eiga sæti fulltrúar bæjar og félags og er samráðsvettvangur þeirra átt sinn þátt í að skapa nauðsynleg tengsl milli félags og bæjar og þar sem þau eru í bestu lagi og eindrægni ríkir álít ég reynsluna hafa sýnt mestan og víðtækastan árangur af vinabæjasamstarfi og það hafa náð til flestra. Ég bendi líka á það í þessu sambandi, eins og kjör fyrsta formannsins sýnir, að löngum hafa bæjarfulltrúar eða fólk með einhvers konar sterk tengsl við bæinn gegnt formennsku eða öðrum störfum fyrir félagið. Svo er enn og hefur sumt af því fólki jafnframt verið býsna mikil félagsmálatröll, bæði karlar og konur. Mörg þeirra eru ekki lengur á meðal okkar, en þakklát í huga höldum við minningu þeirra í heiðri.

Hjálmar Ólafsson var formaður tvívegis, fyrst frá stofnun 1962 fram til 1968, en þá tók við formennskunni Andrés Kristjánsson ritstjóri og skólafulltrúi sem var formaður fjögur ár, til 1972. Hjálmar var þá aftur kjörinn formaður og var það til dauðadags 27. júní 1984. Hann gegndi því formannsstarfi samtals 18 ár sem er býsna langur tími í sögu 45 ára félags, en ég er ekki í vafa um að það sem sérstaklega kveikti þann norræna áhugaeld sem í brjósti hans brann upp frá því var mikið norrænt stúdentamót sem hér var haldið sumarið 1949 þegar hann var 24 ára og hann tók þátt í af lífi og sál. Á síðara formannstímabili sínu var Hjálmar jafnframt formaður Norræna félagsins á Íslandi síðustu tíu árin og loks framkvæmdastjóri þess einnig og sat í framkvæmdaráði Sambands norrænu félaganna (FNF). Sem kennari og konrektor umgekkst hann þá jafnframt fjölda ungs fólks, en á fyrra tímabilinu var hann sem bæjarstjóri í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hafði því að mörgu leyti óvenju góðar aðstæður til að fylgjast með og þoka málum áfram. Þoka málum áfram er reyndar ekki rétta orðið í því sambandi, því að Hjálmar var harðduglegur og hugmyndaríkur hugsjónajaxl sem vildi drífa hlutina áfram og var óhræddur við átök, en engum sem höf'ðu af honum kynni eða áttu við hann samstarf blandaðist hugur um að betra var að hafa hann með sér en móti. Síst er þetta sagt honum til lasts, enda var það hann sem virkjaði mig til starfa í þágu Norræna félagsins, þar sem ég átti eftir að koma töluvert víða við sögu, en ég var svo heppinn að aldrei bar skugga á samstarf okkar.

Kynni okkar tókust meðan ég sat í málaársnefnd Norræna félagsins 1978-81, en á útmánuðum það ár bað hann mig að setjast í stjórn Kópavogsfélagsins í stað Gunnars Guðmundssonar skólastjóra sem þá var nýfallinn frá, en verið hafði varaformaður, og erfði ég þá stöðu. Því kom formennskan óvænt í minn hlut þegar Hjálmar varð bráðkvaddur í júnílok 1984, en hann hafði árið áður verið kosinn formaður til tveggja ára. Ég var á förum til útlanda um haustið og bjóst við að verða lengur en raun varð á. Þegar ég kom aftur heim árið eftir, 1985, og kjörtími fyrri formanns var á enda var ég kosinn formaður, en meðan ég var í burtu var Sólveig Runólfsdóttir gjaldkeri mest í fyrirsvari fyrir félagið. Formaður var ég síðan til 1991. Þá hvarf ég úr stjórn hér í Kópavogi eftir áratug, enda hafði þá reglan sem takmarkar formannssetu við 6 ár samfleytt verið í lög leidd. Ég hafði þá verið formaður sjö ár og bjóst ekki við að lenda aftur í stjórn. Því verð ég að taka skýrt fram, þar sem ég stend nú hér og rek þessa sögu, að ég sóttist ekki eftir því, en kunni ekki við að neita fyrir aðalfundinn í vor þegar ég var beðinn að hlaupa undir bagga í varastjórn.

Eftirmaður minn sem kosinn var í formannssæti haustið 1991 var Björn Ólafsson verkfræðingur og fyrrum bæjarfulltrúi, en hann varð ekki langlífur, lést snögglega haustið eftir. Kristján Guðmundsson fyrrum bæjarstjóri og bæjarfulltrúi, sem þá var varaformaður, sat því uppi með formennskuna eins og ég 9 árum fyrr, en var kosinn formaður 1992 og gegndi starfinu til 2005, er Kjartan Sigurjónsson leysti hann af árlangt. Núverandi formaður, Birna Bjarnadóttir. fyrsta konan sem kjörin hefur verið til þess starfa, tók við af honum í fyrra.

Í félögum eins og Norræna félaginu verða alltaf hæðir og lægðir í starfi, stöðnun og fjörsprettir á víxl. Ástæðulaust er að draga dul á að slík áhugamannafélög berjast nú mörg í bökkum og eiga í vök að verjast vegna breyttra tíma, breyttra aðstæðna og hugsunarháttar. Það er t.d. liðin tíð að norrænu félögin geti safnað þúsundum félagsmanna út á afsláttarferðir til áfangastaða á Norðurlöndum í síharðnandi samkeppni eins og áður var, enda var aldrei til lengdar mikið á slíka félaga að treysta þegar engin var lengur gulrótin til að rétta þeim. Nú sem fyrr eru það þeir sem eiga einhvern snefil af norrænni hugsjón, þykir vænt um nágrannaþjóðirnar á Norðurlöndum eða hafa haft af þeim einhver kynni og telja sér hag og yndi að því að rækta sambandið við þær og stofna til persónulegra eða faglegra kynna og vináttu sem bera uppi starfið í félögum eins og okkar. Þeir sem hafa áhuga á norrænum kynnum og samstarfi og finna í því skemmtun og lífsfyllingu. Þeir sem gera sér grein fyrir því að væri skyndilega frá þeim tekið allt það þéttriðna samstarfsnet sem skapað hefur norrænt módel á flestum sviðum þætti skarð fyrir skildi. Það módel og norræna samvinnu sköpuðu ekki norrænir stjórnmálamenn einir eftir seinna stríð; fyrir því höfðu norrænu félögin talað frá því að þau voru stofnuð í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar, þótt skandínavisminn svokallaði ætti sér eldri rætur sem sögulegt hugtak og hreyfing.

Ég man vel um hvað umræðan snerist um það leyti sem ég lét af formennsku og dró mig að mestu út úr starfi Norræna félagsins fyrir hálfum öðrum áratug eða svo. Óvissa ríkti um norræna samvinnu og þar með starf og framtíð norrænu félaganna. Og það var togað í tvær áttir. Hrun Sovétríkjanna og þróun mála við Eystrasalt opnaði alla glugga í austur og Eystrasaltsríkin horfðu til vesturs. Haldnir voru fundir og ráðstefnur þar sem spáð var í spilin. Sumir óttuðust um norræna samvinnu og að bakland okkar klofnaði í Östnorden og Vestnorden sem var hugtak sem æ oftar heyrðist nefnt. Þeir sem kærðu sig kollótta blésu á allar áhyggjur sögðu: Við vinnum bara saman í Evrópusambandinu - eins raunhæft og það nú var - því að Evrópska efnahagssvæðið var þá nýr veruleiki og stækkandi Evrópusamband tímanna tákn og Brüssel togaði fast - þar sem sumir voru með, en aðrir ekki. Við þetta bættist að hjá okkur voru erfiðleikar og átakatímar í landssamtökunum og ekki alltaf bjart yfir. Þetta nefni ég nú af því að ekkert stendur í stað og enn eru breyttir tímar. Um daginn var mér sagt að nú væri andinn sá innan Sambands norrænu félaganna og í hinu opinbera norræna samstarfi að mörgum þætti fullreynt að Brüssel væri ekki sú gæfudeigla norrænnar samvinnu sem eitt sinn var talið og afturhvarf væri hafið til vaxandi samstarfs Norðurlandaþjóðanna heima fyrir að breyttu breytanda. Og ég fæ ekki betur séð en töluvert líf sé enn í landssamtökunum og okkar 45 ára gömlu félagsdeild hér í Kópavogi og nýjar hugmyndir á sveimi.

Ég býst við að ykkur þyki þetta formannatal frekar rýrt í roði sem söguágrip félagsins og e.t.v. fullpersónulegt og lái ykkur það ekki. En mér er nokkur vorkunn og ég spyr: Hvar eru fundargerðabækur félagsins aðrar en sú sem ég nefndi í byrjun? Hvar er sagan, sannanirnar og heimildirnar? Fyrir því bið ég ykkur að hafa augu og eyru opin og koma þeim gögnum í hendur stjórnarinnar ef af þeim skyldi fréttast.

Í fundargerðabókinni einu sem nær yfir 14 ár - og það einmitt þau sem ég þekki best í sögu félagsins og ég hef því getað stuðst við auk þess sem ég veit eða man - má þrátt fyrir allt sjá að á þeim tíma var oft býsna fjölbreytt starf í Norræna félaginu í Kópavogi og verkefni bæði smá og stór: Fyrirgreiðsla við einstaklinga og hópa, m.a. skólanemendur og ungt fólk, íþróttafólk, lýðháskólanema, kóra og skólahljómsveit, ferðalög, tónleikar, fundir og menningarvökur. Svo dæmi séu tekin mætti nefna þriggja klukkutíma fund með líflegum umræðum í félagsheimilinu um norræna samvinnu í breyttri Evrópu í örstuttri formannstíð Björns Ólafssonar haustið 1991 og myndarlega dagskrá til heiðurs Jóni úr Vör sjötugum sem við stóðum fyrir 1987 áður en þingið veitti honum heiðurslaun og bærinn gerði hann að heiðursborgara, margþætt vinabæjasamstarf, vinabæjamót heima og heiman og gangkvæmar heimsóknir, styrkir og móttaka, útvegun sumarvinnu undir merkjum Nordjobb o.s.frv. Svona mætti áfram halda með fundargerðabókina einu, hvað þá ef heimildir væru til að draga upp heildarmynd af starfi félagsins í 45 ár, en þær skortir.

Sjálfur minnist ég með mikilli ánægju nokkurra hápunkta sem sitja í minninu og ég fékk að njóta í skjóli félagsins á árum áður, svo sem myndarlegs vinabæjamóts hér heima og Finnlandsferðar í formannstíð Hjálmars, boðsferðar til Óðinsvéa á 1000 ára afmæli borgarinnar með fulltrúum bæjaryfirvalda, ferðar á vinabæjamót í Tammerfors þegar Tampere-húsið var vígt og ég hlustaði þar tvívegis á Finlandiu Sibeliusar sama daginn fyrir utan allt annað og 25 ára afmælishátíðar okkar í Kópavogskirkju sem er jafnaldri félagsins. En nú er mál að linni og ég óska okkur öllum til hamingju með þetta 45 ára fmælisbarn og óska því langlífis.

Hjörtur Pálsson

25.01.2008 22:39

Ávarp Hjartar Pálssonar í vinabæjalundinum 2007

Vinabæjalundur

Ávarp á jónsmessunni 2007 í vinabæjalundinum í Kópavogi

á vegum Norræna félagsins þar

Ágætu félagar og aðrir viðstaddir!

Það er af skiljanlegum ástæðum draumur allra sem ákveða að hittast á samkomum úti undir beru lofti að veðrið komi ekki í veg fyrir að af því geti orðið, og ekki þurfum við að kvarta yfir því á þessum jónsmessudegi. Það hefur sannarlega leikið við okkur síðustu daga, enda hef ég notað þá til þess að vinna í garðinum við húsið mitt hér austast í bænum í stað þess að sitja við skrifborð sem endranær er gjarnan hlutskipti mitt. Meðan ég var að krafla í moldinni, reyta illgresi, slá og snyrta lóðina gafst mér kjörið tækifæri til að hugsa um Norræna vinabæjalundinn þar sem við erum nú stödd og hvað hann táknaði - og fannst lundurinn sem ég hef verið að reyna að skapa kringum eigið hús kjörin umgjörð þeirra hugleiðinga.

Ef við höldum þessari líkingu við garðinn, þá erum við með þátttöku í alls konar félagsstarfi að gefa öðrum svolítið af tíma okkar og kröftum til þess að færa út einkalóðina okkar, stækka og fegra garðinn í þeirri von að þar komist fleiri fyrir og geti notið lífsins með okkur og að góð kynni, vinátta og samstarf geti í senn orðið okkur til gleði, gagns og lífsfyllingar af því að við erum nú einu sinni samfélagsverur sem þurfum hvert á öðru að halda og maður er manns gaman. Það er auðvitað aðeins stigmunur, en ekki eðlis á því að líta fyrst til nágranna sinna eins og vinir norræns samstarfs telja sjálfsagða frumskyldu og að líta á heimsþorpið sjálft sem einn stóran garð þar sem gott fólk á sér þann draum að mannkynið geti lifað saman í friði, sátt og eindrægni og hvert okkar haft stuðning af hinu. Hvorug hugmyndin útilokar hina og gleymum því ekki heldur að draumar og hugsjónir glata ekki gildi sínu þó að ganga vilji grátlega seint að láta þær rætast.

Það er stundum sagt að útþráin sé rík í brjóstum eyjarskeggja hvar sem er í heiminum, löngun þeirra sterk til þess að komast út yfir hafið og hitta nágranna sína - eða fá þá í heimsókn. Síst erum við Íslendingar undantekning frá þeirri reglu, og þetta þekkjum við mörg vel sem kynnst höfum norrænu samstarfi og tekið þátt í því okkur til gagns og ánægju. Vinabæjasamstarfið er ein af óteljandi samskiptaleiðum á þeim vettvangi.

Þegar ég lá á hnjánum í garðinum mínum um daginn og var að hugsa um hvað ég ætti að segja á þessum stað og stund brosti ég út í annað og var að hugleiða ýmsar skrítnar tilviljandir lífsins og meðal annars þá hvers vegna ég var beðinn um það. Það gerðist rétt sisona í tveggja manna tali fyrir nákvæmlega hálfum mánuði þegar Gréta Eiríks vara að segja mér frá því hvað til stæði og við fórum að spjalla um vinabæjalundinn og rifja upp hvað við vissum um sögu hans og hvað ekki og ég vissi svo ekki fyrri til en ég var búinn að lofa því að kynna mér það betur og hafa hér um það nokkur orð viðstöddum til fróðleiks. Umhverfið og aðstæðurnar á því augnabliki voru ekki síður viðeigandi en í garðverkunum heima á dögunum, því að við vorum að koma frá gróðursetningu í Finnmörk, reit Suomi-félagsins í Heiðmörk, en í stjórn þess sitjum við Gréta bæði og rann því blóðið til skyldunnar að sinna lundi Finna og Finnlandsvina á Íslandi.

Um forsögu Norræna vinabæjalundarins hér man ég það annars helst frá þeim árum sem ég átti sæti í stjórn Norrænafélagsdeildarinnar í Kópavogi og starfaði þar mest, lengst af sem formaður, að þegar ég heyrði orðið fyrst nefnt vissi ég ekki vel hvað við var átt, en var fljótt leiddur í allan sannleik um það. En á okkar fjörur rak þá hugmyndina um slíkan lund oftast og eftirminnilegast í máli mikils höfðingja og eldhuga úr röðum norrænafélagsfólks í vinabæ okkar, Norrköping. það var Lasse, Lars Bergsten kennari, sem þar var um skeið starfsamur og áhrifamikill lykilmaður í þeim hópi. Honum kynntist ég vel - og við sem þekkjum hann best og fylgdumst líka með því hvernig hann færði út kvíar norræns samstarfs og vináttu til Eystrasaltslandanna, þegar þau öðluðust sjálfstæði sitt á ný, og rétti þá einkum Lettum bróðurhönd - við munum að hann talaði gjarnan fyrir þeirri hugmynd að vinabæirnir Kópavogur og Norrköping kæmu sér upp vinabæjalundum sem ytra tákni og áminningu á almannafæri um gagn og gildi vináttu og norræns samstarfs og hvettu aðra bæi í sínum keðjum til þess að gera slíkt hið sama. Reyndar setti hann markið hátt og lagði til að bæirnir í hvorri vinabæjakeðju færðu hver öðrum gagnkvæmar gjafir, útilistaverk eða "skúlptúra" sem fundinn yrði staður í lundinum á hverjum stað með skildi um uppruna listaverkanna, höfund og gefanda. Hefði af því orðið sæjum við nú hér í okkar lundi eitt listaverk frá hverjum vinabæ Kópavogs og vissum að í öllum vinabæjum okkar, Angmassalik, Klakksvík, Mariehamn, Norrköping, Óðinsvéum, Tammerfors og Þrándheimi, stæðu líka verk sem héðan væru ættuð. Þetta kostar að vísu sitt, en annað kemur á móti, og hjá stóru sveitarfélagi er það auðvitað fyrst og fremst spurning um seiglu, metnað og vilja, hvort slíkt er gert. Það hefur ekki enn orðið hér, en úr því er alltaf unnt að bæta síðar, sé áhugi fyrir hendi, og ég nefni þetta hér til upplýsingar bæði til að benda á það og af sögulegum ástæðum. Á einum stað á landinu er mér kunnugt um að þessi hugmynd hafi náð fram að ganga, þótt að vísu standi listaverkin þar ekki í lundi, heldur við göngugötu. Það er í mínum gamla heimabæ, Akureyri, þar sem þið getið skoðað þau vestanmegin Hafnarstrætis, nálægt Ráðhústorgi, næst þegar þið eigið þar leið um, ef þið hafið ekki þegar gert það.

Ég get sem sé staðfest að hugmyndin um norrænan vinabæjalund hér í Kópavogi var þegar til umræðu í stjórn Norræna félagsins á mínum formannsárum, í fyrrgreindri mynd, þótt ekki væri til hans stofnað fyrr en litlu síðar. Þegar það gerðist var Kristján Guðmundsson, fyrrum bæjarstjóri, formaður félagsins. Til hans fór ég í smiðju og spurði hann um málið, sem hann kvaðst hafa borið formlega upp í stjórn þess, og hann vísaði mér á stutta greinargerð um lundinn sem hann samdi og birtist á sínum tíma í Sveitarstjórnarmálum. Þar segir hann m.a. á þessa leið:

"Öllum í stjórninni þótti tilhlýðilegt að marka fallegan stað á opnu svæði í bæjarlandinu fyrir skógarlund, þar sem komið væri fyrir greinargóðu skilti með nöfnum vinabæja okkar og bæjarmerki þeirra.

Tillaga þessi var kynnt og samþykkt í vinabæjanefnd bæjarins, en í henni sitja þrír fulltrúar kosnir af bæjarstjórn, formaður Norræna félagsins og bæjarstjóri, en hann er sérstakur tengiliður við vinabæi okkar.

Á vinabæjamóti í Kópavogi sumarið 1993 var fyrst plantað í þennan fallega reit, sem er [eins og þið sjáið nú best og vitið - innskot H.P.] í vestanverðum Digraneshlíðum, í næsta nágrenni við Digraneskirkju.

Að loknu þessu vinabæjamóti [segir Kristján - innskot H.P.] barst mér bréf frá bæjarstjóranum í Odense, Verner Dalskov, þar sem hann þakkar eftirminnilega stund þegar við vorum öll saman komin þarna í hlíðinni og gróðursettum hvert og eitt eina birkiplöntu og eina ösp.

Þessi athöfn hafði þau áhrif á Verner að hann setti saman þessa vísu sem hann sendi í umræddu þakkarbréfi:

                    
Et træ er plantet i Islands jord
                    
af venner fra nordiske byer.
                    
I skoven det vokser sig stærk og stor
                    
og venskabs-båndet fornyer.
                    
Rødderne fæstnes i jordens muld
                    
og grene med bladene grønnes.
                    
I sol og i blæst det tillidsfuldt
                    
vil vise at venskaber lønnes.

Ætlunin er þegar gesti ber að garði frá vinabæjum okkar að sumarlagi, þá verði plantað þarna til eflingar og viðhalds lundinum.

Það var m.a. gert á 50 ára lýðveldishátíðinni 1994, en þá bauð bæjarstjórn Kópavogs einum fulltrúa frá hverri bæjarstjórn vinabæjanna."

Hér líkur þessari tilvitnun, en ég vona að þið fyrirgefið mér þótt ég gertir þá játningu í lokin, að sjálfur hef ég með árunum fundið það betur og betur hve ástin á grónum lundi er miklu ríkari í mér en aðdáunin á blásnum mel. Og ég hef velt fyrir mér hvaðan þetta sé komið. Allir þrá hlýju og skjól; það er ósköp mannlegt að vilja búa sér þannig umhverfi. Gleymum öllum akademískum deilum um uppruna Íslendinga og blöndun okkar í aldanna rás, en enginn mun neita því að til norrænna manna teljumst við og eigum margt til þeirra að sækja.

Nú vill svo til að ég er fæddur og að nokkru ættaður Fnjóskadal. Móðir mín hafði "græna fingur", og ég er ekki frá því að ég hafi erft gróðurást mína að einhverju kleyti frá henni. Í Fnjóskadal má sjá bæði blásinn mel og einn af helstu skógum landsins. Landnámsmaðurinn þar hét Þórir snepill Ketilsson, Norðmaður, en afi hans í móðurætt var lögmaður af Svíaríki. Um Þór segir Landnáma m.a.:

"Þórir nam Kaldakinn millum Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs; hann nam þar eigi yndi og fór á brott. [...] Síðan nam hann Hnjóskadal allan til Ódeilu og bjó að Lundi; hann blótaði lundinn."

Þessi fáu orð segja sína sögu. Honum hefur þótt kalt í Kinninni og flutti sig að Lundi. Fnjóskadalur með skógi sínum hefur minnt hann meira á heimkynnin en Kaldakinn.

Aldir liðu, en 1952 var danski rithöfundurinn Martin A. Hansen á ferð um Ísland í snjó og vorþræsingum og fann þá allt í einu að trjáleysið í Húnavatnssýslu var að gera hann brjálaðan. En þegar í Fnjóskadal kom fór honum líkt og landnámsmanninum forðum. Þá var veðrið orðið gott, lengra komið fram á og Hansen og ferðafélagi hans, málarinn og teiknarinn Sven Havsteen-Mikkelsen, voru á leið til Akureyrar að austan í blæjujeppa:

"Við vorum komnir svo langt inn eftir, að hvíta álfabyggðin Akureyri blasti við beint á móti okkur hinum megin við fjörðinn, þegar við fundum að við gátum ekki hugsað þá hugsun til enda, að við ættum aldrei eftir að sjá Fnjóskadal framar, aldrei eftir að horfa út yfir blánandi daladjúpin, þar sem landslagið minnti okkur meira á hjarta Noregs en á nokkrum öðrum stað, sem við höfðum séð á Íslandi, og snerum við í einu vetfangi...."

Já, góðir hálsar, svona er skógurinn, lundurinn, ríkur í minningum okkar, trú og menningararfleifð. Þetta er bara eitthvað í genunum. Það sýnir reynsla okkar sjálfra og vina okkar á Norðurlöndum eins og þeir lýsa henni. Við biðjum skaparann og allar góðar vættir að vernda þennan norræna vinabæjalund, sem nú hefur verið tekið tak í hreinsun og hirðingu.

Hann hlúir að rótunum og skapar skjól. Það gerir norrænt samstarf og vinátta líka og þegar mikið liggur við hefur hún unnið margt gott verk og á örlagastundum skipt sköpum í sögu þeirra og félagslegri og menningarlegri uppbyggingu. Vonandi verður lundurinn notaður til samkomuhalds um ókomin ár þegar við á, eins og til stóð í upphafi. Og vonandi hlúa Norræna félagið og bæjrayfirvöld vel að honum, minnug skyldna sinna og hlutverks í keðju norrænna þjóða.

Hjörtur Pálsson

17.01.2008 20:57

Lög fyrir Norræna félagið í Kópavogi

Lögin voru samþykkt á stofnfundi 5. desember 1962 í Kópavogi.

1.gr. Nafn og heimili.
Félagið heitir Norræna félagið. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.

2.gr. Markmið félagsins.
Það er tilgangur félagsins að vera í verki með skyldum félögum á Norðurlöndum í því að efla og viðhalda samúð og samvinnu meðal allra norrænna þjóða, inn á við og út á við.
Félagið skal leitast við að ná þessu takmarki sínu með því að stuðla að því að samband Íslendinga við aðrar norrænar þjóðir verði sem öflugast, víðtækast og best, bæði menningarlega og fjárhagslega, að svo miklu leyti sem verða má fyrir fullkomins sjálfstæðis sakir.
Félagið skal jafnframt kosta kapps um að auka þekkingu Íslendinga á lifnaðarháttum, þjóðfélagsskipun, andlegri og verklegri menningu annarra norrænna þjóða, og sömuleiðis stuðla að því að þekking þeirra á vorum högum fari vaxandi.

3. gr. Félagar.
Félagar í félaginu geta verið:
1. Einstaklingar.
2. Styrktarfélagar.
3. Skólar, bókasöfn og skyldar stofnanir.
4. Félagasamtök.
Ríkisborgarar Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar geta einnig gerst félagar.
Styrktarfélagar geta einstaklingar , stofnanir, félög eða félagasamtök orðið, sem greiða styrktargjald til félagsins árlega.
Skólar, bókasöfn og skylda stofnanir geta gengið í Norræna félagið og öðlast þar félagsleg réttindi sem einstaklingar, en greiða þá tvöfalt gjald á við einstakling árlega til aðalfélagsins.

4. gr. Aðalfundur og stjórn.
Stjórn félagsins skipa 5 (eða 7) menn kjörnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til 2ja ára. 2 (eða 3) meðstjórnendur skulu ganga úr stjórninni ár hvert. Stjórnin skiptir með sér verkum. Auk þess kýs aðalfundur 2 endurskoðendur, sem endurskoða reikninga félagsins hvert almanaksár fyrir sig. Stjórnarfundir eru löglegir ef mættur er fullur helmingur stjórnarmanna.
Aðalfundur skal haldinn á hverju ári fyrir lok aprílmánaðar og skal hann boðaður öllum félagsmönnum með a.m.k. þriggja daga fyrirvara og dagskrá fundarins birt um leið. Á aðalfundi skal stjórnin gera grein fyrir framkvæmdum og fjárhag félagsins og leggja fram endurskoðaða reikninga yfir tekjur og gjöld á umliðnu ári.
Á aðalfundi skulu eftirfarandi atriði tekin fyrir:
1. Kosinn fundarstjóri og ritari fundarins.
2. Skýrsla um framkvæmdir og fjáhag félagsins.
3. Reikningar félagsins bornir undir atkvæði.
4. Kosin stjórn fyrir næsta starfsár félagsins.
5. Kosnir endurskoðendur.
6. Kosnir fulltrúar og varamenn á sambandsþing.
7. Önnur mál.
Stjórninni er heimilt að boða til aukafunda svo oft sem þörf gerist og ber skylda til þess, ef 10 félagsmenn eða fleiri æskja þess. Atkvæðamagn ræður úrslitum mála á fundum félagsins nema um lagabreytingar sé að ræða.
Aðalfundur er lögmætur sé hann löglega boðaður.
Fyrir 15. maí ár hvert skal stjórn félagsdeildarinnar senda sambandsstjórn Norrænu félaganna skýrslu um störf deildarinnar á liðnu almanaksári ásamt tilskildu gjaldi deildarinnar til heildarsamtakanna.

5. gr.
Breytingar á lögum þessum má aðeins gear á aðalfundi félagsins og þær ná því aðeins fram að ganga að 2/3 fundarmanna samþykki þær.

17.01.2008 20:22

Norræna félagið í Kópavogi 45 ára

Norræna félagið í Kópavogi var stofnað 5. desember árið 1962 og fagnar því 45 ára afmæli. Stjórn félagsins bauð til samkvæmis í tilefni afmælisins í Gerðarsafni við Hamraborg 4 í Kópavogi í tilefni tímamótanna 5. desember 2007. Öllum félögum var boðið með boðsbréfi sem og velunnunum í bæjarfélaginu, Vinabæjarnefnd Kópavogs, stjórn Norræna félagsins á landsvísu, stjórnum Norrænu félagsdeildanna á höfuðborgarsvæðinu, sendiherrum Norðurlandanna og stjórn Íþróttafélagsins Glóðar í Kópavogi.
Flutt voru stutt ávörp og heillaóskir, sagt var frá sögu félagsins og stúlknakór undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur söng nokkur lög. Í tilefni tímamótanna afhenti stjórnin viðurkenningu til Bókasafns Kópavogs fyrir að vekja athygli á norrænum bókmenntum og skipulagningu Norrænnar bókaviku sem safnið hefur unnið á undirförnum árum.

17.01.2008 20:10

Vinabæjarlundurinn í Kópavogi

Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi boðaði til samverustundar í Norræna vinabæjarlundinum vestan við Digraneskirkju í Kópavogi sunnudaginn 24. júní 2007. Tilgangurinn var að minna á mikilvægi norræns samstarfs. Reist var fánaborg við lundinn til auðkenningar þeim sem ekki þekktu til svæðisins en hann er einnig auðkenndur með skilti þar sem norrænu vinabæir Kópavogs eru tilgreindir. Í lundinn var fyrst plantað trjám sumarið 1993 þegar haldið var vinabæjarmót í Kópavogi. Þennan dag var plantað nokkrum velvöldum trjám í lundinn í stað fallinna trjáa. Gestir nutu síðan kaffiveitinga í sérstaklega góðu  veðri sem var þennan dag. Það er von stjórnar Norræna félagsins í Kópavogi að slík samverustund um miðsumar geti orðið að árlegum atburði.
Norrænir vinabæir Kópavogs eru Ammassalik á Grænlandi, Klaksvik í Færeyjum, Mariehamn á Álandseyjum, Norrköping í Svíþjóð, Odense í Danmörku, Tampere í Finnlandi og Trondheim í Noregi. Síðan öðlaðist Kópavogur einnig vinabæ í Kína haustið 2007 en það er Wuhan.

16.01.2008 18:30

Stjórnarfundir frá aðalfundi 2007

Stjórn NF í Kópavogi hefur haldið 3 stjórnarfundi frá aðalfundi 2007. Fyrsti fundur var haldinn 5. maí 2007 þar sem stjórnin skipti með sér verkum og lagði drög að funda og starfsáætlun. Þann 22. september kom stjórnin til fundar og fór yfir helstu verkefni og enn 3. nóvember. Þá var rætt um samstarf um norrænt mót 50 ára og eldri og var samþykkt að tilnefna fulltrúa stjórnar til samvinnu við stjórn Glóðarinnar, íþróttafélags í Kópavogi.
  • 1
Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 23
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 87639
Samtals gestir: 33055
Tölur uppfærðar: 26.2.2021 17:53:37