Færslur: 2009 Apríl

26.04.2009 20:50

Norræn messa í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd


Stjórn Norræna félagsins í Kópavogi  hefur forgöngu um Norræna messu sunnudaginn 3. maí 2009 kl 14:00 í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

 

Prestur er sr. Hjörtur Pálsson, sem situr í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi, er fyrrum formaður félagsdeildarinnar og Suomi-félagsins og á sæti í sambandsstjórn Norræna félagsins á Íslandi. Í ræðu dagsins og söng verður lögð áhersla á það sem norrænt er og gildi þess. Jafnframt mun Hjörtur við þetta tækifæri segja frá byggingu kirkjunnar í Saurbæ og tengslum hennar við Norðurlönd og norræna list.

 

Kór Saurbæjarprestakalls syngur ásamt Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur. Organisti og kórstjóri er Örn Magnússon píanóleikari.

 

Að messu lokinni gefst kirkjugestum kostur á kaffi í Hlöðunni á Bjarteyjarsandi sem er í um 5 mínútna akstursleið innar í firðinum. Kaffiveitingar kosta um 800 kr.

 

Stjórnir félagsdeilda Norrænu félaganna eru sérstaklega hvattar til að koma til messunnar og eiga saman góða samverustund að henni lokinni.  

Til að tryggja kaffiveitingar er æskilegt að skrá þátttöku hjá undirritaðri á netfangið birna.bjarnadottir (hjá) simnet.is fyrir 30. apríl nk.

22.04.2009 12:04

Aðalfundur 2009

Aðalfundarboð

Aðalfundur Norræna félagsins í Kópavogi er hér með boðaður
miðvikudaginn 29. apríl kl 18:00.

Fundurinn verður haldinn í Kórnum,
fundarsal í Bókasafni Kópavogs á neðri hæð við Hamraborg.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Stjórnin hefur samþykkt að leggja fram tillögu að lagabreytingum sem miða að því að samræma lög félagsdeildarinnar lögum Norræna félagsins á Íslandi.

Fundurinn er opinn öllum félögum í Norræna félaginu í Kópavogi
sem eru skuldlausir við félagið um félagsgjöld 2008,
sem og öðrum velunnurum félagsins en þá án atkvæðisréttar.

Ennfremur samþykkti stjórn að tilkynning þessi væri gild sem aðalfundarboð, en í gildandi lögum er ákvæði um að fundinn skuli boða með 7 daga fyrirvara og í aðalfundarboði 2008 var félögum bent á heimasíðu félagsins til upplýsingaöflunar.

Fyrir hönd stjórnar NF í Kópavogi,
Birna Bjarnadóttir, formaður

22.04.2009 10:14

Stjórnarfundur 3. apríl 2009

Stjórn NF í Kópavogi koma saman til stjórnarfundar 3. apríl 2009 kl 18:00.
Fyrir fundinum lá undirbúningur aðalfundar 2009 sem halda ber samkvæmt lögum í apríl árlega.

Samþykkt var að halda fundinn 29. apríl kl 18:00 og leitast við að fá afnot af fundarsal Bókasafns Kópavogs.

Þá var farið yfir lokadrög að breytingum á lögum félagsins og voru þau samþykkt. Stjórnin mun leggja lagabreytingarnar fyrir aðalfund.

Rætt var um hugmynd að Norrænni messu í Hallgrímskirkju í Saurbæ, boðun hennar og framkvæmd.

Þá var ákveðið að efna til samverustundar í Vinabæjarlundi við Digraneskirkju 21. júní kl 16:00.

Formaður gerði grein fyrir tillögum sem fram komu í hugmyndabankann sem settur var fram á afmæli félagsins og taldi tilvalið að reyna að koma þeim á framfæri á árinu.

Þá var rifjað upp að heimild hafði fengist til að setja upp vegvísi með fjarlægðum frá Kópavogi til vinabæjanna við Vinabæjarlundinn, en þær upplýsingar liggja nú fyrir, ma. á heimasíðu NFKóp.
Fleira ekki gert.
  • 1
Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 23
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 87639
Samtals gestir: 33055
Tölur uppfærðar: 26.2.2021 17:53:37